-
Sandlægjunni var útrýmt úr N-Atlantshafinu á 18. öld. Fyrir þann tíma var hún útbreidd við strendur Evrópu og N-Ameríku, auk þess sem hún fannst við Ísland. Núverandi útbreiðsla er bundin við strandsvæði N-Kyrrahafsins, bæði austan og vestan megin.
-
Sandlægjan er elsta skíðishvalategundin sem til er en hún hefur lítið breyst síðustu 30 milljón árin og er því ákaflega forn í útliti. Aðrir skíðishvalir hafa tekið miklum breytingum á þessum tíma. Sandlægjan ferðast hvað mestu vegalengdirnar af öllum núlifandi spendýrum. Á einu ári getur hún ferðast samtals um 20 þúsund km fram og til baka milli fæðustöðva við Norðurheimskautið og æxlunarstöðva fyrir utan Kyrrahafsströnd Mexíkó.
-
Fyrr á öldum kölluðu hvalveiðimenn sandlægjuna „fjandafisk“ (e. devilfish) sökum þess hve hatrammlega hún barðist um þegar hún var veidd. Hún hefur spiklag sem nær allt að 25 sm þykkt. Það eru loðnar burstir á trýni sandlægjunnar og fremst á höfðinu. Þær notar hún sem skynjara, eins og veiðihár katta.
-
Sandlægjan er yfirleitt gráleit með hvítar skellur og oft vaxin hrúðurkörlum og hvalalús. Á hálsinum eru 2-4 raufar, um 1,4 m að lengd hver. Raufarnar gera hálsinum kleift að þenjast út þegar sandlægjan tekur inn mikið vatnsmagn við sundsíun.
-
Sandlægjur eru kjötætur og fæðuöflun er árstíðabundin. Þær nærast á sjávarbotni. Þar róta þær upp botninum með skíðunum og sía út lítil krabbadýr, átu, marflær, lindýr og smáfiska.