-
Norðhvalur er gríðarstór skíðishvalur af ætt sléttbaka og heldur til allt í kringum Norðurheimskautið en Ísland er staðsett á jaðri útbreiðslusvæðis hans í suðri. Norðhvalurinn nærist fyrst og fremst á smáum svifkrabbadýrum en ljósáta og rauðáta eru uppistaða fæðunnar. Langmesta fæðuframboðið er á sumrin og eyðir hann þá miklum tíma í veiðar en meðalstór norðhvalur þarf um 100 tonn af átu á ári til að þrífast vel.
-
Norðhvalur beitir svokallaðri sundsíun við veiðar, en þá síar hann fæðuna inn í kjaftinn á meðan hann syndir. Smá krabbadýrin festast svo innan á skíðunum en vatninu er skilað á ný út um munnvikin. Hann veiðir alls staðar í vatnsbolnum, frá yfirborði og niður á botn. Norðhvalir eru með um 350 pör svartra skíða með silfruðum burstum í kjaftinum. Skíði norðhvalsins eru þau lengstu sem finnast í hvölum, geta orðið 4,5 m að lengd og 36 sm á breidd.
-
Norðhvalir eru oftast einir á ferð en finnast einstaka sinnum í smærri hópum með allt að þremur einstaklingum. Þó eru dæmi þess að þeir sjáist fleiri saman, eða allt að 60, en þess konar samkoma verður líklega aðeins þar sem fæðuframboð er mikið.
-
Norðhvalurinn getur kafað í næstum klukkutíma, en kafar yfirleitt í 4-15 mínútur í einu. Hann getur farið niður á 155 m dýpi. Norðhvalir anda að sér lofti á yfirborðinu í gegnum tvö blástursop efst á höfðinu. Þeir blása 1-2 sinnum á mínútu í hvíld og 4-6 sinnum á mínútu þegar þeir búa sig undir að kafa. Útblásturinn er sérstæður og minnir á bókstafinn V.
-
Norðhvalurinn á fjöldann allan af heimsmetum sem skilur hann frá öðrum hvölum, en hann er með langlífustu hvölunum og getur orðið meira en 200 ára, hefur lengstu skíðin og þykkasta spiklagið. Jafnframt hefur enginn hvalur jafnþykka húð og norðhvalurinn. Húðin minnkar þannig varmatap og ver norðhvalinn fyrir meiðslum þegar hann nuddast upp við hafís.