-
Rákahöfrungurinn er meðal útbreiddustu höfrungategunda á jörðinni en búsvæði hans er sunnan fimmtugustu norðlægrar breiddargráðu. Ísland er því nokkuð norðan við norðurmörk útbreiðslusvæðis hans. Nokkra einstaklinga hefur rekið hér á land en þeir sjást þó sjaldan innan landhelginnar.
-
Rákahöfrungar eru félagslynd dýr og sjást oft í stórum hópum, jafnvel þúsundir dýra saman. Í Norður-Atlantshafi er þó meðalstærð hópa um 30-40 dýr. Þeir virðast oft halda til í aldursskiptum hópum sem ýmist eru með aðeins ungum dýrum eða fullorðnum dýrum en einnig finnast blandaðir hópar.
-
Rákahöfrungur getur orðið 2,4 m að lengd og vegið yfir 160 kg. Rákahöfrungur er nokkuð nett höfrungategund og er líkami hans grannvaxinn, straumlínulagaður og sterkbyggður.
-
Þessi tegund skartar ákaflega fallegu og einkennandi rákamynstri á síðunum þar sem skiptast á hvítir, gráir og blágráir skuggar. Baksvæðið og bakuggi er gráblár en kviðurinn ljós. Trjónan er nokkuð löng og greinilega afmörkuð frá aflíðandi enninu.
-
Rákahöfrungur er sú eina af fimm tegundum ættkvíslarinnar Stenella sem fundist hefur við Ísland. Rákahöfrunar tjá sig með smellu- og blísturhljóðum auk líkamstjáningar á borð við að stökkva, sveifla sporðinum í loftinu eða stinga höfðinu upp úr sjónum.