-
Leiftur er útsjávarhöfrungategund sem sjaldan sést innan landgrunnsins. Þótt þessi höfrungur sjáist sjaldan í hvalaskoðunarferðum frá Íslandi er hann nokkuð algengur úti á opnu hafi, utan við strendur Íslands, þar sem dýpið er mikið.
-
Leiftrar hafa stutt og dökkt trýni, gráar hliðar, dökkt bak og hvítan kvið. Eftir hvorri hlið er löng, hvít rák sem nær frá bakugga aftur á sporð og undir henni er gulleit rák. Leiftrar geta orðið um 2,7 m að lengd og tarfar eru yfirleitt stærri en kýr. Hvert dýr vegur frá 150 til 230 kg.
-
Eins og aðrir tannhvalir nota þeir bergmálsmiðun við fæðuleit með því að gefa frá sér hátíðnihljóð. Þessi hátíðnihljóð magnast upp þegar þau fara í gegnum líffæri í höfði þeirra sem kallast melóna. Hljóðbylgjurnar endurkastast af hlutum í umhverfinu og leifturinn nemur þær aftur með neðri kjálkanum, þaðan sem þær berast í innra eyrað og hægt er að ákvarða stærð, lögun, staðsetningu og fjarlægð bráðarinnar.
-
Fæða leiftra samanstendur af fiski á borð við síld, makríl og lýsingi, smokkfisk og rækju. Þeir eiga til að skipta sér niður í smærri hópa og vinna saman við við veiðar. Þessa hópa má stundum sjá ásamt hnúfubökum, marsvínum og langreyðum.
-
Fengitími leiftra er frá maí fram í ágúst. Meðgangan er 10-12 mánuðir og yfirleitt fæðast kálfarnir, sem eru um 1,3 m að lengd, í júní eða júlí.