-
Króksnjáldri er tannhvalur sem tilheyrir ætt svínhvala og ættkvíslinni snjáldrar en 13 aðrir svínhvalir tilheyra þeirri ættkvísl.
-
Sérkennilegt höfuðlagið aðgreinir króksnjáldrann vel frá öðrum svínhvölum en þeir hafa lágt enni og mjóa og miðlungslanga trjónu. Neðri kjálkinn sveigist upp í áberandi boga frá miðju og aftur að munnvikum. Eitt par tanna vex upp úr kjálkaboga tannanna þar sem hann er hæstur. Kvendýrin eru aftur á móti tannlaus.
-
Skrokkur þessara hvala er oft örum og sárum settur, sennilega eftir baráttu tarfanna um kýrnar, þar sem þeir nota þessar tvær stóru tennur sem skaga upp úr kjálkanum. Þeir eru með eitt blástursop. Svínhvalir eru yfirleitt grannir á bolinn og með lítinn bakugga aftarlega á bolnum. Oftast er hak á aftari brún bægsla lítt áberandi.
-
Líkt og aðra svínhvali skortir króksnjáldrann tennur til að krækja í bráðina, en tennur tarfanna nýtast aðeins í innbyrðis átökum þeirra á milli. Þess í stað sýgur hann upp í sig bráðina. Til að auka sogkraftinn nýtir króksnjáldrinn hreyfanlega og sterka tunguna, en jafnframt er húðfelling undir neðri kjálka sem hjálpar honum að auka rúmmál munnholsins, en við það eykst sogkrafturinn.
-
Króksnjáldrar kafa í 10-40 mínútur áður en þeir koma úr kafi í nokkrar mínútur til að anda og kafa svo á ný. Þegar þeir koma úr kafi þrýsta þeir kjálkanum og trýninu upp úr vatninu og rugga höfðinu fram og aftur á meðan bakugginn kemur upp úr. Króksnjáldrar kafa djúpt og eru sjaldséðir. Af mörgum tegundum hafa aðeins fundist fáeinir einstaklingar og því er lítið vitað um sögu þeirra og vistfræði.