-
Búrhvalur er stærsti tannhvalurinn. Fullvaxin karldýr verða um 17-20 m löng og vega 36-45 tonn. Kvendýrin eru smærri, um 11-13 m löng og vega 14-18 tonn. Í höfði búrhvala er líffæri sem fullt er af vaxkenndri olíu sem er fljótandi við líkamshita en storknar við lægri hita en 29°C. Áður var talið að olía þessi væri sæði og því nefnist þetta líffæri spermaceti á latínu og af því dregur búrhvalur hið enska heiti sitt, „sperm whale“ (sæðishvalur).
-
Menn hafa ekki enn áttað sig á tilgangi þessa líffæris en líklega er það notað til að magna upp þau kraftmiklu hljóð sem búrhvalurinn gefur frá sér. Olían gæti einnig hjálpað búrhvalnum að kafa þar sem þéttleiki hennar breytist eftir dýpt og hitastigi.
-
Búrhvalurinn hefur gríðarstóran heila sem vegur um 9 kg, þann stærsta í dýraríkinu. Hjarta meðalstórs búrhvals vegur um 126 kg, eða álíka mikið og tvær meðalstórar manneskjur. Búrhvalir eru kjötætur sem lifa einkum á risasmokkfiski sem lifir á miklu dýpi á sjávarbotninum. Aðrar fisktegundir, kolkrabbar og skötur eru einnig á matseðlinum. Fullvaxinn búrhvalur getur étið um það bil eitt tonn á dag.
-
Hóparnir samanstanda af skyldum kvendýrum og kálfum þeirra. Að meðaltali eru um 12 dýr í þessum kúahópum. Þetta eru samhentir hópar sem vinna saman að því að veiða og vernda kálfana og hvert annað fyrir hættu.
-
Þegar búrhvalskýr ber mynda önnur kvendýr oft hring í kringum hana og kálfinn til að verja þau. Tarfarnir yfirgefa fjölskyldu sína í kringum 6 ára aldurinn og ganga til liðs við aðra karldýrahópa. Þegar tarfurinn er orðinn fullþroskaður lifir hann yfirleitt einn. Hann flytur sig á æxlunarstöðvar í Suðurhöfum þegar hann er orðinn kynþroska í leit að kvendýrum.