-
Hnúfubakurinn er skíðishvalur sem tilheyrir reyðarhvalaættinni (Balaenopteridae), sem inniheldur t.d. steypireyði, langreyði, sandreyði og hrefnu. Hann hefur einkennandi útlit og er erfðafræðilega ólíkur öllum öðrum reyðarhvölum svo hann hefur verið settur í sérstaka ættkvísl sem nefnist Megaptera á meðan aðrir reyðarhvalir tilheyra ættkvíslinni Balaenoptera.
-
Við fæðuöflun beitir hnúfubakurinn flóknum aðferðum og samstarfi, eins og loftbóluveiðum. Þegar þeir beita þeirri tækni blása þeir frá sér loftbólum fyrir neðan fisktorfu meðan þeir synda í hringi. Fiskarnir festast innan loftbólanna sem auðveldar hnúfubaknum að gleypa mikið magn af fiski í einu.
-
Hnúfubakurinn gefur frá sér margvísleg hljóð, bæði fyrir félagsleg samskipti og til að nota við veiðar. Stórkostlegustu hljóðin eru löng og flókin mökunarlög þeirra, sem tarfarnir syngja af miklum ákafa á mökunartímabilinu. Hnúfubakur verður um 16 m langur og vegur 27-45 tonn. Eins og hjá öðrum skíðishvölum eru kýrnar ögn stærri en tarfarnir.
-
Hjarta meðalstórs hnúfubaks vegur um 195 kg, eða álíka mikið og þrjár fullorðnar manneskjur. Hjarta hnúfubaks getur innihaldið allt að 1.500 lítra af blóði. Hjartað slær um 30 sinnum á mínútu. Á hálsi hnúfubaka eru 14-35 raufar sem ná frá höku niður að nafla. Raufarnar gera hálsinum kleift að þenjast út þegar hvalurinn tekur inn mikið vatnsmagn við sundsíun. Á framanverðu höfðinu eru litlir hnúðar.
-
Hnúfubakar lifa á fiski eða svifdýrum sem þeir leita uppi og gleypa. Stórar torfur henta best fyrir þessa aðferð við fæðuöflun. Meðalstór hnúfubakur étur 2000-2500 kg af svifi, smákröbbum og fiski daglega á fæðutímanum í köldum sjó. Hnúfubakar halda sig í stórum, laustengdum hópum. Yfirleitt endast tengsl á milli hnúfubaka aðeins í nokkra daga. Undantekning frá þessu er hið sterka samband móður og kálfs.