-
Hrefna er smár skíðishvalur sem tilheyrir reyðarhvalaættinni (Balaenopteridae). Reyndar er hún smæsti reyðarhvalur í heimi, verður að meðaltali 5,5-7 m að lengd og að hámarki 10 m.
-
Þótt hrefnan sé smá miðað við aðra skíðishvali vegur hún 7,8-8,4 tonn sem jafnast á við 2-3 fullvaxna fíla. Hrefnan er með útbreiddustu skíðishvölum í heimi en útbreiðsla hennar nær yfir næstum allt norðurhvel jarðar og allt suðurhvelið að sextugustu breiddargráðunni.
-
Á suðurhveli jarðar finnast tvö afbrigði hrefnu, annað töluvert stærra en hitt. Stærra afbrigði hrefnunnar hefur nú verið skilgreint sem sérstök tegund, eða íshrefnan. Minna afbrigðið á suðurhvelinu telst enn til hinnar almennu hrefnu en er nokkuð smærra í vexti en hrefnur á norðurhveli jarðar.
-
Hrefna er mjög dökk að ofanverðu en ljósari að neðan, stundum með trapisulaga rendur aftan við bægslin. Hrefnan hefur einkennandi hvíta rák á hvoru bægsli. Hún er þó ekki á íshrefnunni.
-
Hrefnur geta kafað í 20-25 mínútur en yfirleitt eru þær styttra í kafi, um 2-5 mínútur. Rétt áður en þær kafa setja þær á sig mikla kryppu en bægslin fara ekki upp úr sjónum. Hrefnur lifa yfirleitt í kringum 50 ár. Talið er að 700.000-800.000 hrefnur séu í heiminum.