-
Sléttbakurinn er skíðishvalur af sléttbakaætt og er einn sjaldgæfasti hvalurinn við Íslandsstrendur. Sléttbakurinn er mjög gildvaxinn en ummál hans nemur um 60% af líkamslengd.
-
Sléttbakurinn getur orðið 15 m á lengd. Hann vegur um 54 tonn. Kýrnar eru ögn stærri en tarfarnir, eins og almennt gerist hjá skíðishvölum. Á ensku nefnist sléttbakur „right whale“ (réttur hvalur) en nafnið er dregið af því að hvalveiðimenn töldu sléttbaka réttu hvalina til að einbeita sér að þar sem þeir hafa mikið spik, synda hægt svo auðvelt er að fanga þá og fljóta þegar þeir hafa verið drepnir.
-
Sléttbakar eru með 200-270 pör svartra skíða með grásvörtum eða hvítum burstum í kjaftinum. Skíðin eru löng og afar fíngerð, en hvert skíði getur orðið 3 m að lengd.
-
Höfuðið er loðnara en á flestum hvölum. Allt að 300 hár er að finna á neðri kjálkanum og um 100 á efri kjálkanum. Þau kunna að gegna hlutverki veiðihára og hjálpa hvalnum við ætisleit með því að greina hve mikið er af átu í kringum hann.
-
Höfuðið er ákaflega stórt og sívalt þar sem efri kjálkinn liggur í háum boga og myndar þannig mikið rúmmál innan munnholsins.