-
Skugganefjan er ávöl á skrokkinn og getur orðið allt að sjö metra löng. Melónan er hnúðlaga, trýnið lítt áberandi og bakugginn er smár. Algengt er að sjá kaun eftir sníkjudýr eða rándýr á eldri skugganefjum og á karldýrum má oft sjá rispur og tannaför eftir önnur karldýr.
-
Tegundin finnst bæði á norður- og suðurhveli jarðar og nær útbreiðsla hennar frá kaldtempruðum svæðum að miðbaug. Skugganefjan lætur yfirleitt lítið fyrir sér fara við yfirborðið þótt hún hafi sést stökkva upp úr sjónum hér og þar um heiminn.
-
Skugganefjan er á meðal þeirra spendýra sem kafa dýpst, aðeins búrhvalurinn gæti skákað henni. Hún hefur mest sést á 3.000 m dýpi og hefur lengst verið í kafi í 140 mínútur.
-
Líkt og aðra svínhvali skortir skugganefjuna tennur til að krækja í bráðina, en tennur tarfanna nýtast aðeins í innbyrðis átökum þeirra á milli. Þess í stað sýgur hún upp í sig bráðina. Til að auka sogkraftinn nýtir skugganefjan hreyfanlega og sterka tunguna, en jafnframt er húðfelling undir neðri kjálka sem hjálpar henni að auka rúmmál munnholsins, en við það eykst sogkrafturinn.
-
Ástand stofnsins er ekki þekkt en almennt er talið að stofnstærð skugganefja sé sú mesta á meðal svínhvala. Helsta ógnir við þær eru uppsöfnun eiturefna í vefjum og líffærum, að flækjast í fiskinet og rusl í sjónum, og hljóðtruflanir.