-
Norðsnjáldri er tannhvalur af svínhvalaætt og tilheyrir jafnframt ættkvíslinni snjáldrar ásamt 13 öðrum svínhvölum, en hann er stærstur innan ættbálksins. Norðsnjáldrinn finnst allt norður að norðurströnd Noregs og er eini svínhvalurinn sem hefur svo norðlæga útbreiðslu.
-
Norðsnjáldrar eru styggar skepnur sem halda sig fjarri skipum og sjást því sjaldan. Þeir halda sig stundum í hópum sem í eru 3 til tíu einstaklingar (tarfar, kýr og kálfar) og fyrir hefur komið að þeir strandi í hóp. Norðsnjáldrakýr verða um 5 m langar en tarfarnir um 5,5 m langir og vega 1000 til 1300 kg.
-
Norðsnjáldrar voru fyrstu hvalirnir af ættkvíslinni Mesoplodon sem lýst var. Enski náttúrufræðingurinn og listamaðurinn James Sowerby lýsti tegundinni fyrst árið 1804 út frá höfuðkúpu karldýrs sem strandað hafði í Moray-firði í Skotlandi árið 1800.
-
Þótt oft geti reynst erfitt að greina tegundir svínhvala í sundur þekkist norðsnjáldri á mjög löngu trýni sínu en hann hefur hlutfallslega stærsta trýni allra svínhvala af þessari stærð. Bakugginn er lítill og sveigður. Bægslin eru dökkleit og án haka.
-
Líkt og aðra svínhvali skortir norðsnjáldrann tennur til að krækja í bráðina, en tennur tarfanna nýtast aðeins í innbyrðis átökum þeirra á milli. Þess í stað sýgur hann upp í sig bráðina. Til að auka sogkraftinn nýtir norðsnjáldrinn hreyfanlega og sterka tunguna, en jafnframt er húðfelling undir neðri kjálka sem hjálpar honum að auka rúmmál munnholsins, en við það eykst sogkrafturinn.