-
Stökkullinn er útbreiddur á hitabeltis- og tempruðum hafsvæðum um alla jörðina. Hann er algengur víða og er af mörgum talinn sú hvalategund sem hefur hvað mesta aðlögunarhæfni.
-
Stökkullinn hefur sést allt norður til Lofoten í austri og Nýja-Skotlands í vestri, en er þó algengastur um miðbik N-Atlantshafsins. Stökkuls er víða getið í eldri íslenskum ritum en hann sést af og til við strendur Íslands.
-
Stökklar eru straumlínulagaðir, með rúnnað höfuð og áberandi trýni. Bakugginn er hár og sveigður og bægslin eru stutt og ögn oddmjó. Stökklar eru ekki í útrýmingarhættu.
-
Stökklar lifa í litlum hópum með allt að 12 dýrum og eru mjög félagslyndir. Oft mynda margir hópar stærri hópa sem samanstanda af hundruðum dýra. Hóparnir skiptast oft eftir kynjum en algengt er að sjá skyld kvendýr með kálfa sína saman í hóp. Einnig eru algengir hópar sem samanstanda af karldýrum sem mynda hópinn út frá vináttu sem getur varað áratugum saman.
-
Stökklar vinna saman við veiðar og nærast á ýmsum fisktegundum og smokkfiski. Þeir hafa sést drepa hnísu með því að berja hana vísvitandi úr sjónum. Ástæðan fyrir þessari sjaldgæfu hegðun er óþekkt en tengist ekki fæðuöflun.